Amman og prjónakonan
Skrifað af Eðalrein Sæmundsdóttir þann
Þetta er Amma Loppa
Ég heiti því stóra nafni Eðalrein Magdalena, skírð eftir móður ömmu minni sem , já var að vestan. Ég hef alltaf verið kölluð Ella Magga, nema maðurinn minn kallar mig oft Eðalrein, þegar hann skammar mig :) Ég er dóttir Auðar Árnadóttur, sem því miður fékk ekki að vera lengi með okkur og dó eftir margra ára hetjulega baráttu við krabbamein og Sæmundar Hinrikssonar, mannsins sem gaf mér DNA í skyri með rjóma. Þ.E tók mig sem sitt eigið barn þegar hann og mamma kynntust.
Fædd og uppalin í Keflavík, dvaldi hjá ömmu og afa öllum stundum og skottaðist með afa í vinnu í Olíusamlaginu á bryggjunni. Rölti milli bátana með afa, fékk fisk í soðið og var svo sett í að sópa gólfið á skrifstofunni. En það var nú bara af því að ég þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni. Dvölin hjá ömmu og afa kenndi mér snemma að lífið kemur ekki að sjálfu sér og að þú uppskerð eins og þú sáir. Amma og afi kenndu mér gömlu gildin eins og að búa til brauðsúpu, sópa gólf og slá blettin með orfi.
Ég lærði handavinnu hjá Randý í gaggó Kef en hafði ekki mikinn áhuga verð ég að viðurkenna. Fór svo að taka í prjóna 1984 þegar ég átti von á fyrsta barninu mínu og fannst nú ekki mikið til þess koma þó ég skutlaði upp nokkrum flíkum úr kollinum á mér. Enda alveg vonlaust að reyna að skilja uppskriftir á þeim tíma.
Prjónar hafa alltaf fylgt mér síðan, mismikið en alltaf með eitthvað í gangi. Tók alls konar tímabil: Lopapeysur og borðtuskur, meðal annars og allir í ættinni fengu heimagerðar borðtuskur í jólagjöf ein jólin. Típiskt ég.
2016 flutti ég til Noregs, Smári Geir fæddist og ég umturnaðist með prjóna og garn og hef aldrei haft eins gaman að því að prjóna eins og núna. Fór að dúlla mér í að prufuprjóna og fljótlega að gera mínar eigin hugmyndir af veruleika og semja uppskriftir. Það virðist liggja vel fyrir mér að koma orðum á blað svo það lá beint við að reyna að deila mínum hugmyndum um prjónaskap með öðrum og hafa gaman af því. Ég opnaði Snap undir nafninu Amma Loppa og bullaði þar um allt mögulegt og stofna síðan Knillax 2018 í samstarfi við frænku mína í Danmörku. Við vorum hins vegar með ólíkar væntingar og plön enda heilt kynslóðabil á milli okkar. Ég ákvað því að vera ég sjálf og þannig er þessi síða til komin :)
Ég tek sjálfa mig ekki hátíðlega og það kemur berlega í ljós í uppskriftunum mínum. Ég vona samt sem áður að ég geti miðlað til ykkar af minni þekkingu og reynslu og skrifað fallegar uppskrift sem henta öllum Það langbesta sem ég veit er þegar einhver sendir mér skilaboð og segist hafa lært af mér. Þá er tilganginum náð!